Reynslusaga

Eftirfarandi er skrifað 4 vikum eftir Davis meðferð:

Sonur minn sem nú er 14 ára var greindur með lesblindu þegar hann var 8 ára gamall og hefur hún háð honum verulega í námi. Einnig háðu honum lengi miklir höfuðverkir sem voru skilgreindir sem migreni. Þegar hann var 11 ára gamall var hann mikið frá skóla og nánast ekkert frá janúar til byrjun maí í 6 bekk. Þá var hann með stanslausa höfuðverki, ógleði, svima og magaverki. Lystaleysi háði honum einnig og í kringum 12 ára afmælið var hann einungis 27 kg. Eftir að hafa prófað ýmis lyf sem engu skiluðu var hann lagður inn á sjúkrahús og að lokum greindur með athyglisbrest og í framhaldi af því gefið Ritalin.

 

Ritalinið hjálpaði honum mikið og fór hann að geta stundað skóla með nokkuð eðlilegum hætti þó seinni hluti 7. bekkjar hafi einnig verið honum mjög erfiður og var hann lítið í skóla eftir páska það ár. Það er alveg ljóst að höfuðverkir og önnur líkamleg einkenni má rekja beint til lesblindunnar og athyglisbrestsins. Álag sem drengurinn varð fyrir í skóla var honum um megn og líkaminn gafst upp. Þegar ritalin kom fram í nýjum töflum sem nefnast concertal skánuðu einkennin til muna en undir álagi eins og í prófum var ástandið samt enn ekki nógu gott. Einnig hafði hann lítið úthald ef hann þurfti að læra eitthvað sem honum fannst erfitt eða leiðinlegt og hans lausn á þessu var iðulega að sleppa því að læra.

Drengurinn var farinn að líta á lesblinduna sem hluta af sjálfum sér og ekkert við henni að gera. Lestrargeta hans var þokkaleg, hann las sjálfur skáldsögur fyrir fullorðna en var eigi að síður hæglæs og námsbækur las hann helst ekki. Hann var hins vegar afburðagóður í upplestri og vann tvisvar sinnum upplestrarkeppni í sínum árgangi. Það ber þó að athuga að þarna var um að ræða texta sem hann var búinn að æfa og kunni oft utanað. Skrift var afleit og þegar hann var 12 ára gat hann tæplega talist skrifandi. Stafsetning var afar slök og einkunn í kringum 3 var það sem hann var vanur að fá. Allur frágangur á vinnubókum var skelfilegur og minntu þær helst á krumpaðar servíettur. Hann stóð hins vegar alltaf mjög vel í stærðfræði, en fannst þó að sér væri farið að ganga ver og núna kennir hann ritalini um. Athyglisbrestinn sætti hann sig ekki við og fannst það alltaf erfitt að þurfa að taka ritalin sem hefur á sér mjög neikvæðan stimpil og setti hann í hóp með tossum og ólátabelgjum. Slíkt hefur áhrif á sjálfsmyndina.

Við foreldrarnir fylgdumst með fréttum af kenningum Ron Davis og mættum á kynningar og fyrirlestra sem haldin voru hér á landi. Við vildum hins vegar bíða og sjá til hvaða árangri þetta skilaði áður en við færum að leggja þetta á drenginn. Á fundi og kynningu sem haldin var í Snælandsskóla í Kópavogi í október 2004 komu fram kennari og skólastjóri sem sögðu afskaplega uppörvandi sögur af þessum aðferðum. Einnig gafst þar kostur á að ræða við íslenska leiðbeinendur og létu þeir mjög vel af þeirra reynslu. Þá ákváðum við að bíða ekki lengur og láta á það reyna hverju þessar aðferðir skiluðu syni okkar og vorum við þá ekki síst að hugsa um það með tilliti til athyglisbrestsins. Við höfðum fram að þessu verið örlítið tortryggin á þessar aðferðir, ekki síst vegna þess að þetta er ekki byggt á vísindalegum athugunum, heldur eingöngu á reynslusögum þeirra sem reynt hafa.

Í vinnu með leiðbeinendanum var mest áhersla lögð á athyglisþjálfun. Drengurinn var sjálfur tortrygginn en þó til í að reyna. Honum fannst þetta þrautleiðinlegt en strax á öðrum degi sá hann að þetta skilaði árangri. Strax í vikunni sem leiðréttingin fór fram gat hann stjórnað því hvort hann “var á línunni”. Hann gat á öðrum degi þulið stafrófið bæði aftur á bak og áfram nokkuð sem hann hafði aldrei getað lært.

Vikuna eftir að leiðréttingin fór fram fór hann í skólann án þess að taka concertal og nú 4 vikum síðar er hann enn lyfjalaus og hann finnur sjaldan fyrir einkennum einbeitingaleysis. Einn dag í viku er hann í skólanum frá kl 8.10 til kl. 16.30. Þetta voru erfiðir dagar og eftir leiðréttinguna kom hann einu sinni heim á hádegi og gat ekki meir. Hann vill meina núna að þetta sé ekkert mál. Áður átti hann erfitt með að halda út skóladag án lyfja og fékk iðulega höfuðverk og tómleikatilfinningu ef hann tók ekki lyf. Það að vera án lyfja og án verkja er meiri árangur en við foreldrarnir þorðum að gera okkur vonir um. Í raun eigum við ekki nægjanlega sterk lýsingarorð til að lýsa því hversu mikil breyting þetta er fyrir son okkar sem hingað til hefur verið háður því að taka þetta umdeilda lyf til að geta gengið í skóla.

Nú þegar lengra líður frá erum við farin að sjá aðrar jákvæðar framfarir. Hann vill meina að honum gangi betur að skilja stærðfræðina lyfjalaus því lyfin hafi stundum hindrað hann. Hann segist sjálfur vera öruggari í lestri upphátt, sérstaklega í ensku. Hann stamar minna við lestur. Stærstu framfarirnar voru hins vegar þegar hann með mikilli jákvæðni tók sig til með aðstoð móður sinnar og lærði vel fyrir próf í þýsku ákveðinn og óákveðinn greini í öllum kynjum og öllum föllum. Einnig öll persónufornöfn í eintölu og fleirtölu sem og sögnina að vera (sein) í öllum persónum eintölu og fleirtölu. Úthaldið sem hann hafði við þetta var meira en við höfðum nokkru sinni séð og svo skrifaði hann þetta skipulega upp aftur og aftur þar til hann var ánægður. Að læra fyrir próf með því að skrifa eitthvað upp hefur hann ekki gert áður.

Kostulegar athugasemdir hafa komið fram. Þegar ég var að reyna að skilja eitthvað í þessari vinnu með “línu” og “punkt” og var að reyna að sjá fyrir mér einhverjar leirmyndir sagði hann: “ Þú getur þetta ekki, þú ert ekki lesblind”. Það var orðið skortur á hæfileika að vera ekki lesblind!

Þetta er áfram vinna og við leirum 3-5 kveikjuorð á viku. Á hverjum morgni förum við mæðginin líka í boltaleik með dúskbolta áður en hann fer í skólann. Það má búast við að framfarirnar verði hægari nú næstu vikurnar en þó þær verði ekki meiri erum við ánægð. Bara ef þetta helst.

Eftirfarandi er skrifað í upphafi skólaárs 10 mánuðum eftir Davis meðferð:

10 mánuðum eftir Davis meðferðferð er sonur minn enn lyfjalaus. Úthald í skóla á seinasta skólaári var meira en við höfum séð áður. Enn vantar þó á sjálfsaga við heimanám og oft fer hann auðveldu leiðirnar og gerir eins lítið og hann mögulega kemst upp með. Hann sá þó alveg sjálfur um sitt heimanám og fyrir vorprófin lærði hann alveg sjálfur, en það hefur aldrei áður gerst. Einkunnirnar voru því alveg hans en ekki móðurinnar eins og oft áður. Það ber þó að nefna að einkunnirnar voru mun lakari en áður en taka verður tillit til að þetta var hans vinna og algerlega lyfjalaus.

Höfuðverkur, svimi og ógleði heyra nánast sögunni til. Leirvinna hefur alveg legið niðri í sumar enda hefur drengurinn dvalið fjarri foreldrum sínum. Hann vill halda áfram þar sem frá var horfið þar sem honum sjálfum finnst þetta hafa skilað árangri.