Friðgeir Sveinsson

Ég var 28 ára gamall háseti á frystitogara þegar ég fyrir tilviljun uppgötva hvað það var sem að hafði haldið mér nánast utan skólaveggja frá 13 ára aldri, ég var lesblindur, og svo síðar kom í ljós að athyglisbrestur og ofvirkni voru að hrella mig líka. Frá þeim degi fór ég að kynna mér hvaða úrræði væru til fyrir fólk eins og mig, eftir rækilega sjálfsskoðun og leitun að lausn þá hallaðist ég að því að Davis leiðrétting væri eitthvað sem vert væri að veita frekari athygli.

 

Ég hafði gert mér hugmyndir og væntingar um hvað ég var að fara útí, sumt af því fékk ég, allt annað var bónus. Fyrir leiðréttingu var ég flöktandi við nánast allt sem  ég tók mér fyrir hendur, hálfkláruð verk, sem  ég hafði ruðst í fullur af áhuga og svo aldrei náð að klára, átti ég í bunkum. Að halda athygli í meira en 2 mínútur var nánast ómögulegt og til að lesa bók þurfti meiriháttar áreynslu af minni hálfu, ef að átti að klára bókina. En fæstar kláraði ég. Skóli var eitthvað sem að ég horfði á með hryllingi. Í raun var ég staddur á risastórum krossgötum sem allar lágu í sömu átt, ekkert. Bara halda áfram að hlaupa á veggi á fleygiferð.  

Í leiðréttingunni opnuðust dyr sem ég hafði haft lokaðar svo lengi sem ég man eftir mér, að halda ró, einbeitingu og ná að skilja hvað stóð á blaðinu fyrir framan mig án þess að lesa það 10 sinnum yfir og vera svo í raun litlu nær. Bónusinn var svo enn betri, sjálfstraust, innri kyrrð, og læra að það þarf ekki að sigra heiminn á einum degi, var ekki síður það sem ég þurfti að læra og það gerði ég.

Í dag hlakka ég  til að fara í nám, ég treysti mér til þess. Horfandi yfir farinn veg, fyrir / í og eftir leiðréttingu sé ég fram á  þá ljúfu staðreynd að þrátt fyrir að leiðréttingin hafi kennt mér margt þá eru mínar bestu stundir ókomnar, og að einn daginn munu draumarnir hætta að vera fjarlæg tálsýn og  raunverulega rætast, gefur mér sterkan vind í seglin.

Friðgeir Sveinsson

32 ára sjómaður