Ron Davis

This text will be replaced

Ron Davis er fæddur í Bandaríkjunum 1942.  Hann átti mjög erfiða æsku, var talinn þroskaheftur og einhverfur.  Hann gat lítið talað og alls ekki lesið.  Sjálfur getur hann ekki útskýrt hvað varð til þess að hann komst í gegnum múra einhverfunnar.  Í skólanum lærði hann ekkert og var þar illa séður en fyrir harðfylgi móður hans fékk hann að sitja úti í einu horni skólastofunnar.  Stafir héngu á einum veggnum og þegar heim kom dundaði Ron sér við að leira einn og einn staf í drullupolli á bak við hús.  Þarna kviknaði hugmyndin að því að nota leir til að tileinka sér stafi og seinna orðin sjálf.

Á unglingsárum var hann sendur í greindarpróf og kom öllum á óvart hve hátt hann kom út á því prófi.  Honum tókst að læra að tala en var ólæs langt fram á fullorðinsár. Það var ekki fyrr en hann sjálfur uppgötvaði hvernig hann gæti stillt og stjórnað athygli sinni að honum tókst að læra að lesa.  Með því hélt hann að málið væri leyst en rak sig á að enn vantaði eitthvað upp á. 

Fyrir svona myndrænan einstakling er nauðsynlegt að mynd birtist í huganum um leið og orð er lesið.  Ef mörg myndlaus orð eru í texta, myndast eyða og samhengi rofnar, enginn heildstæður skilningur næst úr setningunum, bara orð og orð á stangli sem engu skila.  Þarna rifjaðist upp fyrir Ron öll leirvinnan sem hafði hjálpað honum að læra stafina á yngri árum; hann hóf að leira myndir sem sýndu merkingu orðsins og smátt og smátt jókst orðskilningur hans verulega og um leið lesskilningur. 

Í dag starfa nokkur hundruð Davis ráðgjafar út um allan heim og nota aðferð Ron Davis við að ná tökum á neikvæðri hlið lesblindunnar með því að virkja þá myndrænu hugsun sem henni er samhliða.